Jólahugvekja II
Jólahugvekja II
Það er desember. Dagatalið segir mér að jólin séu á næsta leiti. Tími ljóss og friðar, ljóss og friðar í myrkrinu sem umlykur hinn norðlæga hluta jarðkringlunnar. Alveg eins og Guð vildi hafa það. Ég veit ekki hvort ég hafi nokkurn tímann verið neitt sérstaklega á höttunum eftir ljósi og friði. Allavega ekki meðvitað. Máske það stafi af því að fæðast inn í fremur átakalítið umhverfi þar sem gengið var að því sem vísu að enginn væri á höttunum eftir lífi manns, hvorki Guð né menn. Það er helst að maður hafi óttast jólaköttinn og Grýlu svo og að fá myglaða kartöflu í skó í stað appelsínu sem í því ungdæmi þótti merkileg, ígildi sætinda samtímans, appelsínan það er. Ætli mætti ekki segja að aðstæður þær sem ég fæddist í, allavega í minningunni, og þá einkum og sér í lagi þegar kemur að desembermánuði, séu örugglega aðstæður sem margir óska sér. Og þegar vælt er í kapítalískri forréttindastöðu sinni yfir gegndarlausri áherslu á neyslu, neyslu, neyslu, neyslu sem fyrir rest mun líkast til tortíma heiminum, kalla yfir okkur heimsendi með grátri og gnístran tanna, er hollast að viðurkenna fyrir sjálfum sér að ágætt er að vera í þeirri stöðu hvar helsta áhyggjuefnið sé velsæld og gildnandi kviður í blindandi ljósi hagvaxtar og efnishyggju sem maður hatast við til að lífið sé ekki of átakalaust á meðan maður siglir niður Styx með sína útþöndu vömb og slæmu samvisku sem flakkar á milli þess að hatast við sig vegna skorts á útlitslegum gæðum og heilsusamlegu líferni og þess að sitja einn að möguleikunum sem svo auðvelt er að fríka út á. Það er svo auðvelt að fríka út um jólin. En mundu, minn hvíti forréttindabróðir sem getur séð aumur á öðrum ógæfusamari í orðum og stutt kristilegt hugarþel eins og góðu fólki sæmir að líftíminn er skammur líkt og ljósbirtan í desembermánuði á norðlægum slóðum. Og mundu mín hvíta forréttindasystir sem getur ákveðið að sjá lausnara mannkyns í femínísku ljósi hvort sem þú leggur trúnað á fagnaðarerindið eður ei að útópían kann að úthrópa lauslæti þitt sem svarthol á tímum ljóss og friðar. Og munið, þið sem á þessi orð hlýðið, að þið eruð líklega þau heppnu sem búið við átakanlega átakalausan heim. Gleðileg jól!