Mittwoch, Dezember 14, 2022

Jólahugvekja I

Það er nóvember. Dagatalið segir mér að í næsta mánuði komi sá árstími sem heitir jól. Í æsku, það sem ég þykist muna, var mér innrætt að þá hefði lausnari mannkyns fæðst. Allir þekkja söguna. Í æsku minni hefi ég vafalítið ekki leitt hugann að því hlutverki sem téður lausnari gegnir eða mér var sagt að hann ætti að gegna. Hvorki meira né minna en að bjarga sál minni. Nú reyni ég að sjá fyrir mér barn sem rembist við að meðtaka fagnaðarerindið sem troðið var í hausinn á því með jólamatnum, sem var í engu samræmi við meintan fæðingarstað frelsarans. Nú segi ég meintan en þá hefi ég vafalítið trúað öllu sem tuggið var ofan í mig í formi lambakjöts og orða. Líklega var þó ekki notuð líkingin með fórnarlambið eða brúðkaup lambsins enda er það meira tengt páskum. Sá fullorðni maður sem nú talar færist nær dauða og hugsar því meir um tilgang þess alls. Barnið sem þessi fullorðni maður var gerði það næsta víst ekki. Kannski það hafi talið sér trú, barnið það er, að það væri jólabarn, að jólin væru gleðileg hátíð, lögmál, eðlisbundið lögmál, ekki lögmál af manna völdum. Að jólin væru skráð í stjörnurnar í himnaregisteri og að fylgja bæri þessu þessu eðlislögmáli án þess að hugsa um það, af því bara, fá gjafir og góðan mat, vel útilátinn mat, kýla vömbina þess fullviss að svona og nákvæmlega svona vilji sé vilji frelsarans, að mettur magi og leikfangabíll séu almáttugri veru þóknanleg. Og ég í því miðju þess alls sem barn þeirri veru mest þóknanlegur Guði, mest þóknanlegu Jesú enda ekki farinn að efast um nokkuð sem mér var sagt. Gleðileg jól!